Bandaríkjastjórn hefur takmarkað aðgengi Írans að bandaríska fjármálakerfinu enn frekar með því að leyfa ekki ákveðnar tegundir millifærslna. Frá þessu greindi bandaríska fjármálaráðuneytið í dag.
Fram kemur að það hafi bannað svokallaðar „U-beygju“ færslur til Írans í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að írönsk stjórnvöld geti fjármagnað hryðjuverkahópa og komið sér upp kjarnorkuvopnum.
Að sögn ráðuneytisins máttu bandarískar fjármálastofnanir framkvæma ákveðnar millifærslur fyrir íranska banka, aðra einstaklinga í Íran eða Íransstjórn. Nú hefur hins vegar verið tekið fyrir þetta.
Greiðslurnar sem um ræðir áttu upptök sín erlendis hjá fjármálastofnunum, sem hvorki voru íranskar né bandarískar. Greiðslurnar fóru aðeins í gegnum bandaríska fjármálakerfið og streymdu til annarra fjármálastofnana, sem hvorki voru íranskar né bandarískar, að því er bandaríska fjármálaráðuneytið segir.