Tók þátt í báðum heimsstyrjöldum en barðist aldrei

Sidney Maurice Lucas
Sidney Maurice Lucas

Einn fárra eftirlifandi hermanna sem gegndu herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni er látinn, 108 ára að aldri. Bretinn Maurice Lucas var aðeins 17 ára þegar hann var kallaður í herinn og gegndi herþjónustu í bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldum.

Sydney Maurice Lucas fæddist í Leicester í Bretlandi 21. september árið 1900. Hann var meðal þeirra síðustu í Bretlandi sem fengu herkvaðningu í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918.

Sydney Maurice Lucas var kornungur og slapp við hryllinginn sem fylgdi stríðinu, tók aldrei þátt í bardaga.

Líkt og margir Bretar flutti Lucas til Ástralíu árið 1928 í leit að betra lífi. Áratug síðar gekk hann í ástralska herinn, þá var skollin á síðari heimsstyrjöldin. Hann sigldi ásamt félögum sínum til Palestínu en þaðan var förinni heitið til Grikklands sem hafði verið hernumið af þýskum og ítölskum hersveitum.

En forlögin tóku í taumana og komu í veg fyrir að Lucas tæki þátt í átökum. Hann fékk botnlangabólgu, hersveit hans fór frá Palestínu en Lucas hélt heim til Ástralíu. Hann var leystur undan herskyldu í nóvember 1941 vegna heilsubrests.

Sidney Maurice Lucas varð eins og áður segir 108 ára. Í blaðaviðtali skömmu fyrir andlátið sagði hann að langlífið mætti fyrst og fremst þakka hóflegri neyslu áfengra drykkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert