Þúsundir stjórnarandstæðinga komu saman í Tiblisi, höfuðborg Georgíu, í dag til að mótmæla stjórnvöldum. Þetta eru fyrstu fjöldamótmælin í landinu frá því átökin við Rússa brutust út.
Andstæðingar Mikhaíl Saakashvili, forseta landsins, saka hann um að hefja stríð við Rússa sem Georgíu átti aldrei möguleika að sigra.
Kakha Kukava, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að von sé á frekari mótmælum og að stjórnarandstæðingar muni ekki gefast upp fyrr en boðað verði til kosninga.
Fyrir um ári leysti lögreglan upp fjöldamótmæli í landinu. Hún skaut gúmmíkúlum á mótmælendur og beitti háþrýstibyssum til að leysa upp fjöldann. Þá höfðu mótmæli staðið yfir í marga daga.
Saakashvili boðaði í framhaldinu til skyndikosninga sem hann sigraði.