Forseti Rúanda, Paul Kagame, varar umheiminn við því að hörmungarnar frá því fyrir fjórtán árum í Rúanda, þjóðarmorð á um einni milljón Tútsa, geti endurtekið sig ef ekkert verður að gert á næstunni vegna átaka í Kongó. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-Moon, ætlar að ræða við leiðtoga Afríkuríkja um ástandið í Kongó á næstu dögum.
Í fréttaskýringu sem birtist á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC í nótt, sem unnin var af blaðamanni BBC frá borginni Kigali í Rúanda, kemur fram að stigvaxandi ólga í Kongó sé komin á það stig nú að friðgæsluliðar Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnanna séu hættir að geta unnið gegn henni, miðað við þann fjölda friðargæsluliða og hermanna sem nú er í landinu.
Harðar pólitískar deilur milli ráðamanna í Rúanda og Kongó eiga sér nú stað vegna stöðunnar sem upp er komin, en ráðamenn í Kongó telja að rætur hennar megi rekja til þjóðarmorðsins í Rúanda. Öfgasinnaðir Hútar, þeir sem mesta ábyrgðu báru á þjóðarmorði á Tútsum, hafa gert sig gildandi í Kongó á undanförnum árum eftir að her Rúanda, sem að meirihluta er skipaður Tútsum, hrakti Húta út úr landinu. Frá þeim tíma hefur skæruliðum úr hópi Húta fjölgað og þeir orðið grimmari og hættulegri umhverfi sínu. Tútsar og Hútar berjast nú í Kongó af mikilli hörku, víðs vegar í landinu, þó átökin séu hörðust í kringum borgina Goma.
Átökin í Kongó eru nú kölluð fyrsta heimstyrjöld Afríku, vegna þess hversu margar þjóðir hafa komið að átökum í landinu. Leiðtogar Afríkuríkja eru ósamstíga um lausnir á málum og ætlar Ban Ki-moon að freista þess að finna lausn sem allra fyrst til að freista þess að kæfa niður hörmungarnar í landinu, sem nú þegar hafa leitt til þess að 300 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín og þúsundir manna hafa látið lífið.