„Rahm-bo" mun stýra Hvíta húsinu

Rahm Emanuel.
Rahm Emanuel. Reuters

Rahm Emanuel, sem mun stýra Hvíta húsinu í Washington eftir að Barack Obama sver embættiseið sem forseti 20. janúar, er einn valdamesti demókratinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann þykir harður í horn að taka og er stundum nefndur Rahm-bo.

Obama staðfesti í gærkvöldi að Emanuel hefði tekið boði um að stýra starfsemi Hvíta hússins.

„Hann er hárréttur maður í starfið," hefur blaðið New York Post eftir öldungadeildarþingmanninum Chuck Schumer. „Hann þekkir þingið, hann er vel inni í málum, þekkir stjórnmálin út og inn og það sem mest er um vert: Hann kemur hlutum í verk." 

Rahm Emanuel er læknissonur, fæddur í Chicago árið 1959. Faðir hans var strangtrúaður gyðingur sem fæddist í Jerúsalem og fullyrt er að hann hafi um tíma á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar verið félagi í Irgun, neðanjarðarhreyfingu gyðinga sem barðist fyrir Stór-Ísrael og stóð fyrir hryðjuverkaárásum á palestínsk og bresk skotmörk í Palestínu.

Þegar Emanuel var barn þótti hann efnilegur ballettdansari og bauðst m.a. styrkur til að stunda nám við Joffrey ballettskólann. Hann valdi þó annan skóla og útskrifaðist síðan með meistaragráðu frá Northwestern háskóla í Boston.

Emanuel hefur aldrei farið leynt með stuðning sinn við Ísrael. Meðan á svonefndum flóabardaga stóð 1991 gekk hann sem sjálfboðaliði í ísraelska herinn og gegndi m.a. herþjónustu á landamærum Ísraels og Líbanons áður en hann hélt heim til Bandaríkjanna til að taka þátt í kosningabaráttu Bills Clintons, síðar Bandaríkjaforseta.

Emanuel þótti standa sig vel í fjáröflun fyrir framboð Clintons og fór með honum í Hvíta húsið árið 1993. Hann þótti fyrirferðarmikill þar og er m.a. sagður hafa verið fyrirmynd persónunnar Josh Lyman í sjónvarpsþáttunum um Vesturálmuna. Paul Begala, einn af ráðgjöfum Clintons, mun hafa lýst stjórnunarstíl Emanuels þannig, að hann væri sambland af gyllinæð og tannpínu.

Sú þjóðsaga gengur í Washington, að Emanuel hafi eitt sinn sent fyrrum samstarfsmanni sínum úldinn fisk í pósti. Þá er einnig fullyrt, að eftir forsetakosningarnar 1996, þegar Clinton var endurkjörinn, hafi Emanuel haldið ræðu í kvöldverðarboði og talið upp þá sem að hans mati hefðu svikið forsetann. Eftir hvert nafn hafi hann stungið steikarhníf í borðið og hópað: Dauður. 

„Þegar hann hafði lokið sér af leit borðið út eins og yfirborð tunglsins," er haft eftir sjónarvotti. „Þetta var eins og atriði úr Guðföðurnum. En svona er Rahm". Hann er raunar sagður hafa mildast verulega með árunum.

Á árunum 1992 til 1999 var Emanuel í hópi helstu ráðgjafa forsetans en snéri þá við blaðinu 1999 og þáði vellaunað framkvæmdastjórastarf í fjárfestingarbankanum Dresdner Kleinwort. Árið 2002 var hann hins vegar kominn á ný í stjórnmálin og náði kjöri sem þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Á þinginu hefur Emanuel m.a. beitt sér mjög í þágu Ísraels og gagnrýnt George W. Bush, Bandaríkjaforseta, fyrir að styðja ekki nægilega vel við bakið á Ísraelsmönnum en verið að öðru leyti að mestu sammála stefnu Bush, í málefnum Miðausturlanda. Hann studdi þannig innrásina í Írak árið 2003. Ísraelska dagblaðið  Ma'ariv talaði í gær um Emanuel sem „okkar mann í Hvíta húsinu."

Emanuel hefur unnið öflugt starf fyrir Obama í kosningabaráttunni undanfarna mánuði. Hann kom m.a. á tengslum milli Obama og valdamikilla samtaka gyðinga og er einkum þakkað, að um 77% bandarískra gyðinga virðast hafa kosið Obama í kosningunum á þriðjudag. 

Emanuel er kvæntur Amy Rule. Þau eiga þrjú börn.

Rahm Emanuel og Barack Obama tala saman á kosningafundi í …
Rahm Emanuel og Barack Obama tala saman á kosningafundi í Chicago í sumar. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert