Bresk stjórnvöld hafa afturkallað vegabréfsáritun fyrrum forsætisráðherra Taílands, Thaksin Shinawatra, til Bretlands en hann hefur verið í útlegð í Bretlandi undanfarið. Greint er frá þessu í taílenskum fjölmiðlum í dag.
Thaksin Shinawatra var nýverið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir spillingu en honum var steypt af stóli í valdaráni hersins fyrir tveimur árum. Taílenskir saksóknarar ætla að óska eftir því að hann verði framseldur frá Bretlandi.
Haft er eftir heimildarmönnum í dagblaðinu Bangkok Post að breska sendiráðið í Bankok hefði sent tölvupóst á alþjóðleg flugfélög þar sem beðið var um að hvorki Thaksin eða eiginkona hans, Potjaman, fengju að koma um borð í flugvélar sem væru að fara til Bretlands. Í fréttinni kom fram að Thaksin væri staddur í Kína en ekki væri vitað hvort eiginkonan væri með í för.