Enn leitað í rústum skólans

Leitað hefur verið í alla nótt í rústum skólans sem hrundi til grunna á Haítí í gær. Talið er að fleiri hundruð börn og kennarar séu enn undir rústunum. Fimmtíu eru látnir og að minnsta kosti 120 slasaðir. Ekki liggur fyrir hversu margir voru á skólasvæðinu, en um leikskóla og grunnskóla er að ræða. Á BBC er talað um að fjöldinn geti verið á bilinu 200-700.

Skólabyggingin var á þremur hæðum í úthverfi Port-au-Prince, Petionville. Fjöldi fólks er að leita í rústunum, meðal annars frá Sameinuðu þjóðunum og hjálparstofnunum. Bandarísk stjórnvöld eru að senda lið á svæðið sem er sérhæft í leit og björgun. 

Samkvæmt AP fréttastofunni er mikil örvænting meðal þeirra sem hafa leitað í rústunum í alla nótt. Margir þeirra hafa engin verkfæri heldur grafa með höndunum enda að leita að börnunum sínum sem eru grafin undir rústunum. Kona sem AP fréttastofan ræddi við á staðnum var full örvæntingar enda á hún fjögur börn í skólanum og hefur ekkert þeirra fundist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert