Að minnsta kosti 20 eru látnir og 21 særðir eftir slys sem varð um borð í rússneskum kjarnorkukafbáti á Japanshafi í gær, samkvæmt upplýsingum frá rússneska sjóhernum. Er þetta stærsta slys um borð í slíkum bát frá því kjarnorkukafbáturinn Kursk sökk í Barentshafi árið 2000, og 118 létust.
Samkvæmt talsmanni flotans skemmdist kjarnorkukljúfurinn sem knýr bátinn ekki í slysinu og er geislun í grennd við bátinn „eðlileg“ að hans sögn.
Sagði hann að eldvarnakerfi um borð í bátnum hefði farið af stað fyrri slysni þegar verið var að prófa bátinn. Í frétt rússnesku RIA Novosti fréttastofunnar var verið að gera bátinn kláran til að afhenda hann indverska flotanum, en þetta hefur ekki fengist staðfest hjá hernum.
Hinir látnu eru bæði þjónustuaðilar og starfsmenn skipasmíðastöðva, en alls misstu sex sjómenn og 14 óbreyttir borgarar lífið. Hinir særðu voru fluttir á sjúkrahús, en þeir hafa orðið fyrir misalvarlegri eitrun. Heimildir AFP fréttastofunnar herma að 20 til viðbótar hafi orðið fyrir vægri eitrun en þeir fái aðhlynningu um borð í öðru skipi.
Alls voru 208 um borð í kafbátnum þegar slysið varð.