Bush óvinsælasti forsetinn

George W. Bush er óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá því byrjað var að mæla slíkt kerfisbundið fyrir rúmum sex áratugum. Í nýrri könnun sem sjónvarpsstöðin CNN birti í dag sögðust 76% þátttakenda vera óánægðir með störf forsetans.

„Enginn annar forseti hefur orðið fyrir því, að yfir 70% eru óánægð með hann. Bush hefur tekist það þrívegis á þessu ári," segir Keating Holland, sem stýrir skoðanakönnunum hjá CNN. „Þetta þýðir, að Bush er óvinsælli en Richard Nixon var þegar hann sagði af sér forsetaembætti vegna Watergatemálsins en þá voru 66% óánægðir með störf hans."

Óvinsældir Harry S. Trumans mældist 67% í janúar árið 1952 þegar hann var að hefja síðasta ár sitt í embætti.

Barack Obama, sem tekur við forsetaembættinu í janúar, heimsækir Bush í Hvíta húsið í kvöld. 57% þátttakenda í könnun CNN sögðust telja að valdaskiptin muni ganga vel fyrir sig en 39% sögðust telja að ýmislegt muni ganga á. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert