Yfirvöld á Kúbu vonast til betri samskipta við Bandaríkin eftir að Barack Obama tekur við forsetaembættinu í janúar. „Það er skoðun okkar að bandarísk yfirvöld verði að endurskoða stefnu sína gagnvart Kúbu,“ hefur rússneska fréttastofan Ria-Novosti eftir utanríkisráðherra Kúbu.
Perez Roque segist vona að breytingarnar sem Obama hafi boðað í kosningabaráttu sinni muni einnig eiga við afléttingu á viðskiptabanni sem hefur verið í gildi í 46 ár auk þess sem hann vonast til að Guantánamo-fangabúðunum sem staðsettar eru á Kúbu, verði lokað.
Meðan á kosningabaráttunni stóð sagðist Obama ætla sér að tala við yfirvöld yfirlýstra andstæðinga Bandaríkjanna eins og Íran og Norður-Kóreu og aflétta einhverjum refsiaðgerðanna gegn Kúbu.