John Podesta, formaður undirbúningsnefndar Baracks Obama vegna forsetaskiptanna í Bandaríkjunum í janúar, segir að Obama muni beita framkvæmdavaldi forseta til að snúa nokkrum ákvörðunum ríkisstjórnar George W. Bush fráfarandi forseta.
Segir hann þetta m.a. eiga við um lög um notkun erfðavísa til rannsókna og olíuboranir. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. Podesta segir að auðvelt verði fyrir Obama að snúa umræddum ákvörðunum þar sem hann þurfi ekki að bera það undir bandaríska þingið.
Obama og Bush munu hittast í fyrsta sinn í dag frá því Obama var kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Mun Bush m.a. sýna Obama og fjölskyldu hans forsetaíbúðina í Hvíta húsinu. Þá munu Obama og Bush eiga fund.
„Ég ætla ekki að gera ráð fyrir vandamálum. Ég ætla að fara þangað inn í anda samvinnu,” sagði Obama um fundinn á föstudag en óvenjulegt er að fráfarandi forseti hitti nýkjörinn forseta þetta fljótt eftir kjör hans. Er það rakið til sérstakra aðstæðna sem efnahagskreppa heimsins og stríðsrekstur Bandaríkjanna skapa.