Unglingsdrengur, sem segist endurholdgaður Búdda, sat friðsæll í frumskógi og blessaði unnendur sína með léttu klappi á höfuðið. Unnendurnir telja hann guðdómlegan. Hann mælti ekki orð.
Fylgjendur hins átján ára Ram Bahadur Bamjan telja að hann hafi aðeins hugleitt og hvorki neytt vott né þurrt frá því þeir sáu hann fyrst í frumskógum suðurhluta Nepans, um 160 kílómetra suður af Katmandú, árið 2005. Fylgjendurnir segja einnig að hann hafi ekki hreyft sig í mánuði, heldur setið með augun lokuð undir tjádrumbi.
Þúsundir hafa komið til hans í vikunni eftir að hann bauð þeim að hitta sig. „Mér gafst tækifæri á að sjá guð í dag,“ sagði húsmóðirin Bishnu Maya Khadka, eftir að Bamjan blessaði hana. „Sumir segja að hann sé Búdda en í mínum huga er hann bara guð.“
Sumir búddaprestar hafa verið tregir til að samþyggja Bamjan sem Búdda endurholdgaðan, en þeir sem eru búddatrúar telja að hver og einn endurfæðist í nýjum líkama.
„Þótt hann íhugi og borði ekki mat er ekki þar með sagt að hann sé Búdda endurfæddur,“ segir Min Bahadur Shakya frá bókstarfstrúarstofnuninni Nagarjuna. „Gera þarf nákvæmar rannsóknir áður en ég fellst á það.“
Aðrir trúa að þarna fari Búdda. „Ég efast ekki um að hann er guð,“ segir bóndinn Meg Bahadur Lama.
Um 325 milljónir manna, aðallega í Asíu, eru búddatrúar. Þeir trúa á hinn upplýsta Siddhartha Gautama, sem fæddist í norðvesturhluta Nepal fyrir 2500 árum.