Móðir var í dag dæmd í 43 ára fangelsi fyrir að hafast ekki að þegar sjö ára dóttir hennar lá stórslösuð og vannærð á gólfi á heimili þeirra eftir barsmíðar föður síns.
Faðir stúlkunnar, Cesar Rodriguez var dæmdur í 29 ára fangelsi fyrir manndráp. Hann misþyrmdi dóttur sinni fyrir að næla sér í jógúrtdós. Sjö ára stúlkan lá á gólfinu heima hjá sér og móðir hennar, Nixzaliz Santiago, gerði ekkert til að hjálpa henni. Dómari sagði að Santiago hefði án efa getað bjargað lífi dóttur sinnar ef hún hefði bara flutt hana á sjúkrahús.
Við réttarhaldið kom fram að ábendingar höfðu borist um illa meðferð á stúlkunni en barnaverndaryfirvöld gerðu ekkert.
Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og varð m.a. til þess að verulegar úrbætur hafa verið gerðar í barnaverndarmálum í New York, þar sem vanræksla barna er alvarlegt vandamál.