Sarkozy hrósar sér en hnýtir í Bush

Nicolas Sarkozy og Carla Bruni-Sarkozy koma til verðlaunaafhendingarinnar í dag.
Nicolas Sarkozy og Carla Bruni-Sarkozy koma til verðlaunaafhendingarinnar í dag. Reuters

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sagðist í dag hafa sýnt af sér  fyrirmyndarforustu þegar hann miðlaði málum í deilu Georgíu og Rússlands. Hins vegar væri ekki hægt að segja það sama um starfsbróðir hans í Bandaríkjunum.

„Þegar ljóst varð 8. ágúst, að einhver varð að fara til Moskvu, hver var það þá sem stóð vörð um mannréttindi?" spurði Sarkozy þegar hann fékk í dag afhent verðlaun tímaritsins Politique Internationale. Um er að ræða verðlaun, sem veitt eru fyrir pólitískt hugrekki.

„Var það forseti Bandaríkjanna, sem sagði: Þetta er óviðunandi? Eða var það Frakkland, sem beitti sér fyrir viðræðum milli leiðtoga Rússlands og Georgíu?" spurði Frakklandsforseti.

Stríðsátök brutust út milli Rússa og Georgíumanna í ágúst þegar Georgíuher reyndi að leggja undir sig Suður-Ossetíu. Sarkozy beitti sér fyrir friðarsamkomulagi í deilunni.

„Ég man eftir samtali við Bandaríkjaforseta daginn áður en við fórum til Moskvu: „Ekki fara þangað, þeir (Rússarnir) vilja fara til Tbilisi, þeir eru í 40 km fjarlægð. Ekki fara, þú skalt bara fordæma þetta."

„Við vorum þar ásamt  Bernard Kouchner (utanríkisráðherra Frakklands)  og, eins og fyrir tilviljun þá var vopnahléið tilkynnt á meðan," sagði Sarkozy þegar hann tók við verðlaununum í forsetahöllinni í París.

Hann mun eiga fund með Dimitrí Medvedev, forseta Rússlands, í Nice á morgun. Búist er við að Sarkozy gagnrýni þar brot Rússa gegn vopnahléssamningnum en reyni jafnframt að treysta samkomulag ríkjanna tveggja.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert