Michael Hayden, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, sagði í ræðu í Washington í kvöld, að Osama bin Laden, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, væri einangraður og hefði þurft að verja mikilli orku í að tryggja eigið öryggi.
„Hann eyðir mikilli orku í að komast af, tryggja eigið öryggi. Í raun virðist hann mjög einangraður frá daglegri starfsemi samtakanna, sem hann er þó sagður stjórna," sagði Hayden.
Hann sagði að CIA legði áfram mikla áherslu á að handsama bin Laden þrátt fyrir vangaveltur í fjölmiðlum um hið gagnstæða. Þá sagðist Hayden telja að bin Laden væri í felum í fjöllunum á landamærum Afganistans og Pakistans þar sem al-Qaeda hefur búið um sig.
Hayden sagði, að það yrði mikið áfall fyrir al-Qaeda ef tækist að handtaka eða drepa bin Laden vegna þess að hann væri tákn samtakanna.