Fótboltabullur í fangelsi fyrir kynþáttafordóma

Tuttugu og sex serbneskar fótboltabullur voru í dag dæmdar í sex mánaða fangelsi fyrir kynþáttafordóma á knattspyrnuleik. Bullurnar klæddu sig í hvíta kufla og settu á sig hettur, líkt og Ku Kux Klan félagar, og flögguðu borða með meiðandi ummælum í garð þeldökks leikmanns.

Mike Temwanjera, 26 ára þeldökkur leikmaður Borac Cacak, sem er í fyrstu deildinni í Serbíu, var fórnarlamb fordómanna. Atvikið varð á heimavelli Borac Cacak fyrir tæpum tveimur árum þegar liðið mætti Vozdovac frá höfuðborginni Belgrad. Það voru stuðningsmenn heimaliðsins sem veittust að sínum eigin leikmanni. Á borðanum sem þeir flögguðu stóð „farðu burt - það vill þig enginn hér“.

Dómari stöðvaði leikinn þegar hann sá hvers kyns var og bullurnar voru handteknar. Tveir stjórnarmenn Borac Cacak sögðu af sér í kjölfar atburðarins og liðið var sett í heimaleikjabann.

Mike Temwanjera yfirgaf þegar í stað herbúðir Borac Cacak í Serbíu og leikur nú með Vaslui í rúmeníu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert