Barack Obama, sem kjörinn var forseti Bandaríkjanna í síðustu viku, er sagður íhuga að útnefna Hillary Clinton sem utanríkisráðherra landsins. Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur þetta eftir tveimur ónafngreindum ráðgjöfum Obama.
Starfsmenn Clinton hafa ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti en því, að það sé ákvörðun væntanlegs forseta hverja hann útnefnir í ráðherraembætti.
Fleiri nöfn hafa verið nefnd í tengslum við utanríkisráðherraembættið, svo sem John Kerry, sem var forsetaefni demókrata 2004, Sam Nunn, Chuck Hagel, sem er öldungadeildarþingmaður fyrir repúblikana, og Bill Richardson, ríkisstjóri Nýju-Mexíkó, sem sóttist eftir því að verða forsetaefni demókrata eins og Obama og Clinton.