Ný skoðanakönnun bendir til þess að nær tveir þriðju Dana telji að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sé í leit að embætti erlendis, annaðhvort hjá Evrópusambandinu eða Atlantshafsbandalaginu.
Fogh Rasmussen hefur oft reynt að kveða niður þrálátan orðróm um að hann sé í atvinnuleit erlendis. Skoðanakönnun, sem gerð var fyrir danska ríkisútvarpið, bendir þó til þess að Danir trúi honum ekki. Um 64% aðspurðra sögðust telja að forsætisráðherrann væri í leit að embætti erlendis. Aðeins 25% töldu það ósennilegt.
Fogh Rasmussen hefur verið forsætisráðherra í sjö ár. Um 51% aðspurðra í könnuninni sögðust telja að hann yrði ekki forsætisráðherra eftir næstu kosningar. Um 42% töldu hins vegar að hann gegndi embættinu í eitt kjörtímabil til viðbótar.