Jarðskjálfti að stærð 7,5 stig varð í Indónesíu í kvöld, að sögn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar US Geological Survey. Upptök skjálftans voru á Minhasa svæðinu á eynni Sulawesi snemma morguns að þarlendum tíma. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið afturkölluð.
Jarðskjálftinn varð 135 km frá Gorontalo á Sulawesi og voru upptök hans á 21 km dýpi undir sjávarbotni að sögn USGS.
AP fréttastofan segir að sumir íbúar á svæðinu hafi flúið heimili sín skelfingu lostnir. Íbúi í Gorantalo sagði að húsi hafi skolfið í meira en tvær mínútur og hann sá marga flýja, suma líkt og hann sjálfan, með grátandi börn í fanginu.
Í kjölfar stóra jarðskjálftans fylgdi sterkur eftirskjálfti. Að sögn embættismanns hjá indónesískri jarðfræðistofnun var enn ekki vitað um skemmdir eða slys af völdum jarðskjálftans.
Miðstöð sem varar við flóðbylgjum, eða hafnarbylgjum (tsunami), við Kyrrahaf sagði að skjálftinn hefði getað skapað flóðbylgju sem valdið hefði skaða á 1.000 km langri strandlengju umhverfis upptök skjálftans.
Mikill jarðskjálfti varð undan eynni Súmötru í Indónesíu í desember árið 2004 og olli hafnarbylgju sem varð meira en 230 þúsund manns að bana. Hafnarbylgja sem átti upptök við eyna Jövu í fyrra varð nærri fimm þúsund manns að aldurtila.