Svíar ætla að undirrita alþjóðlegan sáttmála um bann við klasasprengjum, að sögn Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra landsins. Hann segir að Svíar muni smám saman leggja af notkun DWS 39 sprengjunnar.
Svíþjóð var í hópi 111 landa sem skrifuðu undir drög að samkomulagi um bann við notkun klasasprengna í Dyflini á Írlandi í maís.l. Þeir vildu endurskoða notkun DWS 39 sprengjunnar áður en þeir tæku endanlega ákvörðun.
Reinfeldt sagði í samtali við sænska útvarpið í dag að sprengjur af þessari tegund verði smám saman fjarlægðar úr vopnabúri fyrir JAS-39 Gripen orrustuþotur.
Friðarsinnar hafa lengi barist fyrir banni við notkun klasasprengna. Oft verða eftir ósprungnir hlutar þeirra sem síðar springa og slasa eða drepa óbreytta borgara.
Lokaundirskrift Dyflinarsamkomulagsins fer fram í Osló 3. desember n.k. Margir þeirra sem helst nota klasasprengjur munu ekki skrifa undir samkomulagið.