Miklar umræður fara nú fram í Bretlandi um barnaverndarmál og hæfni yfirvalda til að taka á slíkum málum í tengslum við dauða 17. mánaða drengs sem nefndur hefur verið Baby P. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Drengurinn lést í ágúst á síðasta ári og eru móðir hans og tveir karlmenn ákærð um að pynta hann til dauða. Barnaverndaryfirvöld hafa einnig verið harðlega gagnrýnd fyrir að afhenda móður drengsins hann aftur þrátt fyrir vísbendingar um að hann hefði sætt ofbeldi.
Mál drengsins heyrði undir sömu deild og mál Victoriu Climbie, sem einnig var pyntuð til dauða fyrir nokkrum árum en mál hennar vakti mikið umtal.Greint er frá því í fréttaþættinum Panorama sem sýndur verður á BBC í kvöld að félagsráðgjafinn, sem fór með mál drengsins, hafi viljað að honum yrði komið í fóstur eftir að hann var lagður inn á sjúkrahús árið 2006. Yfirmenn hennar hafi hins vegar ákveðið að barnið yrði tímabundið í umsjá vinkonu móður þess. Það hafi síðan orðið til þess að drengurinn var aftur afhentur móður sinni.
Í þættinum segir félagsráðgjafinn að lögregla hafi henni sammála um að drengurinn ætti ekki að vera í návist móður sinnar. Ónefndur lögreglumaður staðfestir að hreinskilnar umræður hafi farið fram um málið og að lögregla hafi talið félagsmálayfirvöld láta móðurina um of njóta vafans.
Félagsmálaskrifstofa Haringey vísar því hins vegar á bug að litið hafi verið framhjá vilja félagsráðgjafans.
Fulltrúar barnaverndaryfirvalda höfðu heimsótt heimili drengsins 60 sinnum er hann lést. Þá hafði læknir skoðað hann en ekki tekið eftir því að drengurinn var með brotið bak og átta brákuð rifbein.