Barack Obama, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, og John McCain, forsetaefni repúblikana, komu saman í kvöld í fyrsta skipti eftir kosningarnar fyrir hálfum mánuði og boðuðu „nýtt tímabil umbóta“ í bandarískum stjórnmálum.
Obama og McCain hvöttu demókrata og repúblikana til að láta af „hatrömmum flokkadráttum í Washington“ og taka höndum saman til að leysa erfið vandamál sem steðjuðu að Bandaríkjunum, meðal annars efnahagsvandann. Þeir boðuðu einnig samstarf í orku- og þjóðaröryggismálum.