Herskáir Palestínumenn á Gasasvæðinu skutu átta til tólf flugskeytum yfir landamærin til Ísraels í nótt en í gær lýsti Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, því yfir að Ísraelar teldu sig ekki lengur bundna af vopnahléi vegna brota Palestínumenna gegn því. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
Landamæri Gasasvæðisins hafa nú verið lokuð í fimm daga og er matvælaskortur sagður yfirvofandi á svæðinu. Ísraelskir ráðamenn hafa heitið því að hleypa bílalest með matvælum og hjálpargögnum inn á svæðið í dag en talsmaður Ísraelshers í Tel Aviv segir að það ráðist af atburðum dagsins hvort af því verði.
Olmert sagði á ríkisstjórnarfundi í gær að þar sem friðarsamkomulagið við við Hamassamtökin á Gasasvæðinu hefði verið rofið hefði hann skipað öryggissveitum að útbúa áætlun um að koma Hamas frá völdum. Hamassamtökin hafa farið með völd á Gasa undanfarna 17 mánuði en vopnahlé hefur verið í gildi á milli þeirra og Ísraela í fimm mánuði.