Konur á fertugs- og fimmtugsaldri er orðinn sá þjóðfélagshópur í Bretlandi sem fer hvað óábyrgast með vín, að því er fram kemur í nýrri rannsókn. Á sama tíma minnkar neysla karla.
Þetta er niðurstaða vísindamanna við Cardiff-háskóla sem framkvæmdu áfengispróf á um 1.200 manns sem voru úti á lífinu seint að kvöldi um helgi og með vín um hönd.
Simon Moore, einn aðstandenda rannsóknarinnar, sagði hafa komið í ljós að eftir því sem konur í áðurnefndum hópi voru eldri þeim mun hærra hafi áfengismagnið verið í blóði þeirra.
Sagði Moore að margir karlar á þrítugsaldri hafi jafnan farið illa með vín, en að þeir hafi dregið úr neyslu sinni eftir 29. afmælisdaginn.
Helmingurinn af konunum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu farið fram úr ráðlögðum hámarksskammti af áfengi, eða fram úr sex áfengiseiningum eins og þær eru skilgreindar.
Jafngildir það magn tveimur stórum léttvínsglösum.
Nýlega vöruðu stjórnvöld við því að yfir 10 milljónir manna á Bretlandi drekki of mikið og að fjórði hver Breti valdi heilsu sinni skaða með ofneyslu áfengis.