Líkur eru taldar á að Barack Obama, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, muni endurskoða afstöðu forvera síns, George W. Bush forseta, til stofnfrumurannsókna. Samtök kaþólskra biskupa í Bandaríkjunum vara frambjóðandann við þeim þjóðfélagslega klofningi sem slík endurskoðun geti leitt af sér.
Telja samtökin að málið geti klofið milljónir Bandaríkjamanna í tvær andstæðar fylkingar, á sama tíma og andstæðingar fóstureyðinga búa sig undir harða baráttu gegn tilraunum með stofnfrumur á nýju ári.
Meirihluti lækna tekur annan pól í hæðina og horfir nú til þeirra möguleika sem kunni að felast í rannsóknunum, sem taldar eru munu geta leitt til meðferðarúrræða sem bjargi mannslífum.
Hvort Obama snýr við banni við opinberri fjármögnun á þessu rannsóknasviði, sem sett var í stjórnartíð Bush forseta, kemur í ljós eftir að hann sver embættiseið þann 20. janúar næstkomandi.
„Spurningin er hvort frumskógarlögmálið taki við af stefnu Bush,“ sagði Richard Doerflinger, baráttumaður gegn fóstureyðingum innan raða samtaka kaþólskra biskupa, í viðtali við dagblaðið Usa Today, og átti þá við þann möguleika að með afnámi bannsins muni vísindamenn skapa, klóna og eyða mannfóstrum á víxl við rannsóknir sínar.
„Við höfum miklar áhyggjur af þessu siðferðislega máli,“ sagði Doerflinger áhyggjufullur.