Breytt staða bílarisa

Nú er vistin heldur daufleg í verksmiðjum GM.
Nú er vistin heldur daufleg í verksmiðjum GM. Reuters

Það er af sem áður var. Bílarisarnir í Bandaríkjunum hafa ekki lengur tangarhald á stjórnmálamönnum í Washington. Ummælin „Það sem er gott fyrir Bandaríkin er gott fyrir General Motors“ hljóma hjákátlega andspænis skelfilegri stöðu fyrirtækisins í dag.

Bílasalan vestanhafs hefur ekki verið minni í 17 ár og má nefna að General Motors hefur tapað hátt í 73 milljörðum dala frá árslokum 2004, eða sem svarar 10.080 milljörðum íslenskra króna.

Hnignun stórfyrirtækjanna þriggja, General Motors, Chrysler og Ford Motor Company, er gerð að umtalsefni í fréttaskýringu dagblaðsins The New York Times, þar sem segir að mikið hafi breyst frá því Charles E. Wilson, þáverandi forstjóri GM, hafi látið hin fleygu orð falla fyrir röskum 55 árum síðan.

Rifjar blaðið upp andstöðu bílarisanna við lög um aukna sparneytni bifreiða, sem demókratarnir Hillary Clinton og John Kerry, sem bæði hafa rætt um mikilvægi umhverfisverndar, lögðust gegn, með því að taka undir þau rök bílafyrirtækjanna að þau réðu ekki yfir nauðsynlegri tækni til að aukna sparneytni bifreiða eins mikið og lögin kváðu á um.

Eftir linnulausar hækkanir á olíuverði urðu hins vegar þau tíðindi haustið 2007 að Bandaríkjaþing samþykkti lög um aukna sparneytni.

Vitnar blaðið til þeirrar skoðunar Michael Useem, prófessors við háskólann í Pennsylvaníu, að skortur á hæfu stjórnunarfólki sé liður í hnignun fyrirtækjanna, sem megi nú muna fífill sinn fegurri.

Hafa bílarisarnir varið miklu fé til hagsmunagæslu í Washington en ekki haft meiri árangur en svo að George W. Bush forseti hefur lagst eindregið gegn kröfum um umfangsmikla fjárhagsaðstoð þeim til handa.

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, vill fara milliveginn, en ekki liggur fyrir hvort og þá hversu miklu opinberu fé verði varið í þessu skyni.

Á vef Bloomberg kemur fram að fulltrúar fyrirtækjanna þriggja fari fram á 25 milljarða dala aðstoð frá ríkinu og að ekki sé ljóst hvort málið hljóti afgreiðslu fyrir helgi.

Segir þar einnig að aðstoðin myndi felast í sjö til tíu ára lánum og að skattgreiðendur fengu í staðinn hlutabréf, tryggingu fyrir hóflegum launum æðstu stjórnenda og því framgengt að fyrirtækin smíði sparneytnari bifreiðar.

Dana Perino, talsmaður Hvíta hússins, gagnrýnir hugmyndir um að ríkið aðstoði félögin með þessum hætti, með vísun til þess að með því móti sé ekki stuðlað að nauðsynlegri endurskipulagningu innan fyrirtækjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert