Græddu barka í konu

AP

Evrópskir læknar skýrðu frá því í dag að þeir hefðu grætt barka í rúmlega þrítuga konu. Læknarnir notuðu hennar eigin stofnfrumur til að rækta vef sem var svo nýttur til að græða í hana barka úr annarri manneskju. Með því móti segjast þeir geta komið í veg lyfjagjöf sem ávallt fylgi líffæraígræðslu. Læknarnir segja að þetta sé fyrsta skrefið að því að hægt verði að rækta tiltekin líffæri með stofnfrumum líffæraþeganna sjálfra.

Það voru læknar á háskólasjúkrahúsi í Barcelona sem framkvæmdu aðgerðina.

„Þessi tækni lofar góðu,“ sagði Dr. Eric Genden en hann framkvæmdi svipaða barkaígræðslu á Mount Sinai í New York fyrir þremur árum. Þar var líkt og nú, notaður vefur úr líffæraþeganum og líffæragjafanum. Barkaígræðslur eða aðgerðir þar sem barki eða loftæðar eru græddar í fólk eru fátíðar.

Aðgerðin á háskólasjúkrahúsinu í Barcelona vekur því mikla athygli. Líffæraþeginn er Claudia Castilla frá Kólumbíu, þrítug móðir tveggja barna. Hún hefur þjáðst af berklum í mörg ár. Vinstra lunga hennar hefur ítrekað fallið saman og hefur jafnoft þurft að leggja hana inn á sjúkrahús til meðferðar.

Læknar voru farnir að íhuga að fjarlægja vinstra lunga hennar þegar Dr. Paolo Macchiarini, yfirlæknir brjóstholsskurðdeildar háskólasjúkrahússins í Barcelona stakk upp á að reynd yrði barkaígræðsla.

Þegar barki hafði fengist til ígræðslunnar fjarlægðu læknar á Paduasjúkrahúsinu á Ítalíu frumuhimnu af barkanum. Á sama tíma fengu læknar á háskólasjúkrahúsinu í Bristol mergsýni úr líffæraþeganum og notuðu stofnfrumur úr mergnum til að rækta brjósk og frumuvef sem síðar var settur á nýja barkann.

Barkaígræðslan var svo framkvæmd í Barcelona í júní í sumar. Hingað til hefur ekkert bent til að Castilla hafni nýja barkanum en hún hefur ekki tekið nein ónæmislyf eða önnur lyf sem gjarnan valda hliðarverkunum á borð við hækkaðan blóðþrýsting, lifrarbilun og krabbameini.

„Ég var skelfingu lostin í upphafi en nú nýt ég lífsins. Ég er himinlifandi enda búið að komast fyrir þrálátan sjúkdóm,“ sagði Castilla á blaðamannafundi.

Læknar fylgjast grannt með Castilla og segja að tíminn einn skeri úr um árangurinn til lengri tíma. Eftir þrjú ár að minnsta kosti ætti mesta hættan á að tilbúni barkinn bili.

Læknar segja hins vegar að Castilla sé nú fullfær um að annast börnin sín og geti gengið hæfilegar vegalengdir án þess að mæðast. Sjálf segist Castilla hafa farið á dansgólf á diskóteki og ekki orðið meint af.

Læknar segja að bæta megi lífsgæði að minnsta kosti þrjú þúsund manns með sambærilegri aðgerð, bæði börn sem fæðast með gallaðan barka og fólk sem hefur vegna sjúkdóma skerta starfsemi í barka.

Læknar binda miklar vonir við líffæragjöf með notkun stofnfruma úr líffæraþega og telja ekki útilokað að beita mætti tækninni við ígræðslu þarma, þvagblöðru og æxlunarfæra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert