Íslensk stjórnvöld eru sögð vera afar hissa á því að Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, hafi sagt að Íslendingar yrðu að kynna „trúverðuga áætlun“ áður en Svíar gætu veitt þeim fjárhagsaðstoð í fjármálakreppunni.
Á sænska fréttavefnum E24 er haft eftir háttsettum íslenskum embættismanni að íslensk stjórnvöld hafi tekið eftir því að Svíar hafi aðgreint „sig frá hinum Norðurlandaþjóðunum. Ekki aðeins frá Noregi, heldur einnig frá Danmörku þar sem við höfum einnig fengið jákvæð viðbrögð. Svo virðist sem að Svíarnir elski okkur ekki jafn mikið og hinir,“ hefur E24 eftir ónefndum íslenskum ráðamanni.
Sænsk stjórnvöld hafa greint frá því að þau hyggist veita Íslendingum lán. Það liggur hins vegar hvorki fyrir hvenær það muni verða afgreitt né um hversu háa fjárhæð er um að ræða.
Fram hefur komið að Svíar bíði nú eftir því að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) afgreiði lánsumsókn Íslendinga áður en þeir greina frá sinni ákvörðun.
Borg minntist hins vegar ekkert á IMF-lánið í gær þegar hann ræddi stöðu mála, heldur sagði hann að íslensk stjórnvöld yrðu að kynna „trúverðuga áætlun“ hvernig þau hyggist taka til hendinni í efnahagsmálum.
Þetta hefur fallið í grýttan jarðveg hjá íslenskum stjórnvöldum. Pirrings er farið að gæta hjá íslenskum ráðamönnum í garð Svía fyrir að draga lappirnar í málinu.