Kynlífsdómur settur á ís

Acors og Palmer.
Acors og Palmer. mbl.is

Réttarhöldum í áfrýjunarmáli tveggja Breta sem voru dæmdir í þriggja mánaða fangelsi fyrir ósæmilegar kynlífsathafnir á baðströnd í Dubai hefur verið frestað fram á fimmtudag. Málið, sem hefur vakið mikla athygli í Bretlandi, þykir undirstrika íhaldssöm gildi við Persaflóa.

Michelle Palmer, sem er 37 ára, og Vince Acors, sem er 34 ára, áfrýjuðu máli sínu, en þau voru fundin sek fyrir kynlífsathafnir á almannafæri þann 5. júlí síðastliðinn eftir grun um óhóflega áfengisneyslu.

Þá voru þau sektuð um 272 dali hvort fyrir neyslu áfengis.

Palmer og Acors var sleppt gegn tryggingu en þau voru ekki viðstödd þegar dómurinn var kveðinn upp 16. október sl.

Palmer og Acors sátu sitt í hvoru lagi í réttarsalnum í dag áður en þau voru svo leidd fyrir dómara sem spurði þau aftur hvort þau hefðu haft mök utandyra, valdið óspektum á almannafæri og verið undir áhrifum áfengis, þegar þau voru handsömuð.

Neituðu þau fyrstu tveimur sakargiftunum en viðurkenndu að hafa verið undir áhrifum þegar þau voru tekin höndum á Jumeirah-baðströndinni í Dubai.

Acors sat baka til í réttinum til að hlýða á málsmeðferðina en Palmer sat grátandi á meðal áheyranda, slegin yfir meðferðinni.

Líf Palmer hefur legið niður á við eftir atvikið en henni var vikið úr starfi stjórnanda hjá útgáfufyrirtæki.

Acors, sem var í heimsókn í Dubai, hefur hins vegar verið meinað að yfirgefa Sameinuðu arabísku furstadæmin áður en málinu lýkur.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bretlandi og dregið athyglina að lífi rúmlega 120.000 Breta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, þar af um 100.000 Breta í Dubai.

Hundruð þúsunda ferðamanna og aðfluttra Vesturlandabúa taka þátt í næturlífinu í Dubai, þar sem fylgt er ströngum íslömskum reglum, þar með talið banni við kynlífi utan hjónabands.

Hefur málið einnig dregið athyglina að drykkjuskap Breta á erlendra grundu, eftir ítrekaðar lýsingar af lauslæti þarlendra kvenna í ferðalögum með lággjaldaflugfélögum til ódýrra landa.

Hafa sumar greitt fyrir áfengi með blíðu sinni.

Þá var Breti tekinn höndum eftir skrílslæti um borð í flugvél Emirates-flugfélagsins í sumar, þar sem hann hótaði farþegunum að vera með sprengju meðferðis. 

Þokuslæðingur yfir Dubai.
Þokuslæðingur yfir Dubai. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert