Stjórnendur norska skipafélagsins Oddfjell hafa ákveðið að breyta siglingaleiðum flota síns. Skipin verða að taka á sig krók og sigla vestur fyrir Afríku í stað þess að sigla um Súesskurðinn. Ástæðan er tíð sjórán Sómala á Aden flóa undan ströndum Sómalíu.
Oddfjell gerir út rúmlega 90 olíutankskip og segja stjórnendur fyrirtækisins að þessi ákvörðun hafi verið tekin eftir að sómalskir sjóræningjar rændu sádí-arabíska olíuskipinu Sirius Star á Aden flóa.
„Við getum ekki lengur lagt áhafnir okkar í hættu. Ástandið á Aden flóa er slíkt að við getum ekki hætt á að sjóræningjar ræni skipum okkar og áhöfn og haldi þeim í gíslingu uns lausnargjald er greitt,“ segir Terje Storeng, forseti Oddfjell.
Siglingin frá Evrópu, um Súesskurð, gegnum Rauðahaf er þúsundum kílómetra styttri en siglingin vestur fyrir Afríku. Það lengir því siglinguna um nokkra daga að sigla fyrir Góðravonarhöfða.
„Óneitanlega mun flutningskostnaður stóraukast en við heitum á skilning viðskiptavina okkar,“ segir Terja Storeng.
Sómalskir sjóræningjar rændu á þriðja tug skipa undan ströndum Sómalíu í fyrra og sjórán hafa verið tíð síðustu vikur. Í öllum tilvikum hafa sjóræningjar skilað skipum og áhöfn þegar lausnargjald hefur verið greitt. NATO er með þrjú herskip á Aden flóa en allt kemur fyrir ekki.
„Odfjell er vonsvikið yfir áhugaleysi stjórnvalda á þessu alvarlega vandamáli. Sjóránin á Aden flóa eru vægðarlaus og skipulögð glæpastarfsemi,“ segir Terje Storeng, forseti Oddfjell.