Aðild að BNP brottrekstrarsök

Merki Breska þjóðarflokksins, BNP.
Merki Breska þjóðarflokksins, BNP.

Lögregluþjóni í Merseyside á Englandi, sýslunni þar sem er að finna Bítlaborgina Liverpool, kann að verða vikið úr starfi eftir að upp komst að nafn hans væri á lista sem lekið var um meðlimi Breska þjóðarflokksins, BNP. En samkvæmt breskum lögum mega lögregluþjónar ekki vera á félagaskrá flokksins sökum þess að það vegur upp á móti þeirri viðleitni lögreglunnar að stuðla að bættum samskiptum kynþátta.

Nick Griffin, leiðtogi BNP, segir að þeir sem láku listanum verði sóttir til saka.

Listinn sem um ræðir hefur verið fjarlægður af bloggsíðu þar sem hann birtist fyrst en mun enn vera aðgengilegur á öðrum vefsíðum.

Fyrst lék grunur á að innanflokksmenn hefðu verið að verki en nú vill  Simon Darby, talsmaður flokksins, meina að stuðningsmenn Verkamannaflokksins hafi verið að verki.

Jacqui Smith innanríkisráðherra lítur svo á málið að lekinn afhjúpi þann grundvallarvanda BNP að fylgjendur flokksins vilji halda stuðningi sínum við hann leyndum.

Málið gæti dregið dilk á eftir sér því á listanum eru meðal annarra læknar, hermenn og kennarar sem gætu lent í vandræðum ef krafa verður gerð um að þau útskýri pólitíska afstöðu sína.

Breski þjóðarflokkurinn gerir út á óánægju vissra þjóðfélagshópa með málefni innflytjenda, en nýjar tölur sýna að árið 2007 fluttu 237.000 fleiri til landsins en frá því, sem er það mesta síðan 2004.

Kemur aukningin meðal annars til af því að færri fluttu frá landinu en talið var að myndu gera vegna niðursveiflunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert