ESB sendir herskip á sjóræningjaslóðir

Risaolíuskipið Sirius sem sómalskir sjóræningjar hafa rænt.
Risaolíuskipið Sirius sem sómalskir sjóræningjar hafa rænt. Reuters

Herskip á vegum Evrópusambandsins eiga að hefja eftirlit undan ströndum Sómalíu 8. desember til að vernda flutningaskip frá sjóræningjum. Herve Morin, varnarmálaráðherra Frakklands, skýrði frá þessu í dag.

Þetta er í fyrsta skipti sem herskipum er beitt á vegum Evrópusambandsins. Franski varnarmálaráðherrann sagði að alls yrðu fimm eða sex herskip send á slóðir sjóræningja í Adenflóa.

Nokkur ríki hafa samþykkt að taka þátt í þessum aðgerðum, þeirra á meðal Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Holland og Spánn. Líklegt er að Noregur taki einnig þátt í aðgerðunum þótt landið eigi ekki aðild að Evrópusambandinu.

Sjóræningjarnir hafa meðal annars ráðist á flutningaskip sem flytja hjálpargögn til Sómalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert