„Farðu aftur til Afríku“

Barack Obama er ekkert minna en anti-Kristur í hugum hvítra …
Barack Obama er ekkert minna en anti-Kristur í hugum hvítra öfgamanna í Bandaríkjunum. Reuters

Bylgja kynþáttafordóma hefur risið í Bandaríkjunum í kjölfar sigurs Baracks Obamas í forsetakosningunum 4. nóvember. Óttast er að hún muni rísa enn hærra á næstu vikum og mánuðum.

Tilvikin eru þegar orðin mörg og óhugnaleg.

Hjón búsett í Pennsylvaníu sem eru af ólíkum kynþáttum vöknuðu upp við lyktina af brenndum krossi í garðinum sínum.

 Í Kaliforníu gengu skemmdarvargar um og máluðu hakakrossinn á bifreiðar og bílaskúra, ásamt slagorðum á borð við „farðu aftur til Afríku“.

En sem kunnugt er þá var faðir Obama, Barack Obama eldri, frá Kenía.

Nemendur um borð í skólarútu í Idaho fóru ekki leynt með hatur sitt á hinum verðandi forseta og hrópuðu „drepum Obama“ á leiðinni í skólann.

Látið var að því liggja í bandarískum fjölmiðlum í aðdraganda kosninganna að kynþáttur skipti ekki lengur máli.

Mark Potok, stjórnandi samtakanna Southern Poverty Law Center í Alabama, segir hins vegar að mörg hundruð tilvik kynþáttafordóma hafi blossað upp skömmu fyrir og eftir kosningarnar.

Segist Potok eiga erfitt með að henda reiður á nákvæma tölu í þessu samhengi. Tilvikin séu þó mörg gróf, allt upp í morðhótanir.

Sú þróun sé að verða í Bandaríkjunum að árið 2040 verði hvítir komnir í minnihluta og því veki kosning blökkumanns ótta og angist í röðum hvítra kynþáttahatara.

Þá segir Brian Levin, prófessor við Center for the Study of Hate and Extremism við Ríkisháskólann í Kaliforníu í San Bernardino að vísbendingar væru um aukna umferð á vefsíðum þar sem gert sé út á málstað kynþáttahyggju, samkvæmt þeirri hugmyndafræði að hvítir hafi yfirburði yfir aðra kynstofna.

Þá rifjaði Levin upp að öfgasamtökin Klu Klux Klan hafi verið stofnuð skömmu eftir að þrælahald var afnumið í Bandaríkjunum.

„Í þeirra augum er Barack Obama ekkert minna en anti-Kristur,“ sagði Levin um afstöðu þessa jaðarhóps til demókratans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert