Eric Holder, sem verður að öllum líkindum fyrsti blökkumaðurinn til að gegna embætti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, braust frá fátækt í að hljóta glæstan feril sem lögfræðingur. Holder, sem er 57 ára, er sonur innflytjanda frá Barbados sem hreiðruðu um sig í Bronx-borgarhlutanum í New York.
Aðeins eru fjögur ár liðin frá því Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti og sá sem talinn er hafa valið Holder í embættið, kynntist lögfræðingnum aðsópsmikla.
Holder hefur síðan unnið traust Obamas og var meðal annars í þriggja manna nefnd sem hafði þann starfa að vinna að valinu að varaforsetaefni hans.
Holder ólst upp í fátækrahverfinu Queens, sögusviði kvikmyndarinnar Coming to America með gamanleikaranum Eddie Murphy í aðalhlutverki, þar sem nöturleiki hverfisins er gerður að baksviði.
Hann hóf nám í almenningsskóla en var tíu ára gömlum boðið að taka þátt í verkefni fyrir efnilega nemendur.
Leið hans lá svo í Kolumbíu-háskóla í New York, þar sem Obama var einnig við nám á sínum tíma, áður en hann hóf störf hjá samtökunum NAACP, sem berjast fyrir réttindum blökkumanna.
Árið 1988 skipaði Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti, hann í æðsta dómstig District of Columbia í Washington. Fimm árum síðar gerði Bill Clinton hann að saksóknara á sama dómsstigi og varð Holder þar með fyrsti blökkumaðurinn til að gegna því embætti.
Þegar James Gorelick lét af embætti aðstoðardómsmálaráðherra fjórum áður síðar óx vegur Holders enn. Clinton skipaði hann eftirmann Gorelicks og þar með hægri mann Janet Reno dómsmálaráðherra.
Hann starfaði svo um skamma hríð sem starfandi dómsmálaráðherra í upphafi valdatíðar George W. Bush forseta 2001 áður en John Ashcroft var valinn í embættið.
Á síðustu dögum sínum í embætti steig Clinton það umdeilda skref að náða auðmanninn Marc Rich, eftir að lögfræðingur þess síðarnefnda, Jack Quinn, hafði fengið jákvæð viðbrögð frá Holder um náðunina.
Komið hefur til umræðu að náðunin kunni að verða Holder til trafala nú.
Eftir að hann vék fyrir Ashcroft hefur Holder starfað við lögfræðiskrifstofuna Covington & Burling í Washington, en þar fer alþjóðlegt fyrirtæki með skrifstofur í Peking, Brussel, Lundúnum, New York, San Francisco, Kísildalnum svokallaða, San Diego og Washington.
Hefur hann í því starfi meðal annars gætt hagsmuna lyfjarisans Merck og bandarísku atvinnumannadeildarinnar í ruðningi, NFL.