Gott fyrir eiginkonurnar átta

Skyldu þessir lögreglumenn fá inneignarnótu?
Skyldu þessir lögreglumenn fá inneignarnótu? Reuters

Taívaninn Liu Ho-mu hefur tekið því skrefi stjórnvalda að gefa hverjum og einasta landsmanni 109 Bandaríkjadali að gjöf í formi verlsunarinneignar fagnandi, enda mun hann, eiginkonurnar átta og börnin 32 fá alls 4.500 dali frá ríkinu, eða semsvarar 621.000 krónum.

„Það lítur út fyrir að fjölskyldan mín muni hagnast einna mest af þessu framtaki. Ég er afar þakklátur, þetta mun hjálpa okkur mikið,“ sagði Liu og brosti út að eyrum í samtali við taívanska sjónvarpsstöð.

Liu, sem titlar sjálfan sig „andlegan kennara“, hefur í rúma tvo áratugi búið með átta konum og eignast með þeim 32 börn í gegnum tíðina.

Hann varð þjóðþekktur fyrir fjórum árum þegar kvenréttindasamtök hvöttu saksóknara til að rannsaka hjónaböndin, en fjölkvæni er brot sem varðar allt að fimm ára fangelsi á Taívan.

Máli sínu til varnar sagði Liu að „guð, draugar og Búddha“ hefðu verið viðstaddir hjónavígslurnar og að hann hefði ekki brotið nein lög þar sem hann hefði ekki skráð samböndin sem staðfesta sambúð.

Markmið stjórnvalda með því að útdeila inneignarnótunum til 23 milljóna íbúa landsins er að örva verslun andspænis kreppunni og er búist við að þetta framtak muni auka veltu þjóðarbúsins um 82 milljónir taívanskra dala á komandi ári, eða semsvarar 0,64 prósenta aukningu í þjóðarframleiðslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert