Óttast um líf vændiskvenna

Margar vændiskonur eru fluttar nauðugar viljugar sjóleiðina til hafnarborgarinnar Marsaille.
Margar vændiskonur eru fluttar nauðugar viljugar sjóleiðina til hafnarborgarinnar Marsaille. Reuters

Franska lögreglan leitar nú þriggja vændiskvenna sem saknað er í héraðinu Provence í suðurhluta landsins. Konurnar eru frá Austur-Evrópu og Alsír, en málið þykir undirstrika mikið varnarleysi kvenna sem selja blíðu sína gagnvart misyndismönnum.

Patrick Salameh, sem er 51 árs, er grunaður um aðild að hvarfi kvennanna og hefur lögreglan ákaft leitað þeirra á landareign í eigu fjölskyldu hans.

En hann var á sínum tíma dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir vopnað rán.

Á sama tíma rannsakaði lögreglan erfðaefni á heimili mannsins í Marseille, ásamt því að leggja hald á gripi í eigu tveggja kvennanna.

Salameh var handtekinn fyrir skömmu eftir að 24 gömul vændiskona frá Marokkó kærði hann fyrir nauðgun. Sagði hún hann hafa beitt sig linnulausu líkamlegu ofbeldi í sex klukkustundir.

Var hann í kjölfarið ákærður fyrir að halda tveimur vændiskvennanna föngnum, þar með talið 42 ára konu frá Úkraínu sem tilkynnt var um að hefði horfið dagana 5. til 6. október.

Hin vændiskonan, 28 ára gömul stúlka frá Alsír, hvarf tveimur dögum síðar eftir að hafa farið heim með viðskiptavini.

Þá er hann grunaður um aðild að hvarfi 23 ára gamallar vændiskonu frá Rúmeníu sem ekkert hefur spurst til síðan 22 október síðastliðinn.

Salameh lauk afplánun sinni árið 2005 og hefur lögreglan í Marsaille lýst honum sem „greindum manni sem haldi heimili ásamt unnustu og barni“. Hann hefur unnið í byggingariðnaði en er einnig listmálari sem meðal annars hefur notað kvenlíkamann í listsköpun sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert