Sjóræningjarnir sem rændu olíuskipinu Sirius Star undan ströndum Sómalíu krefjast 25 milljóna Bandaríkjadala í lausnargjald fyrir skipið og áhöfnina, að því er maður sem kveðst vera fulltrúi mannanna fullyrðir.
„Við krefjumst 25 milljóna dala frá eigendum skipsins í Sádi Arabíu. Við höfum engan áhuga á löngum samningaviðræðum um málið,“ sagði Mohamed Said, talsmaður sjóræningjanna í samtali við AFP-fréttastofuna.
„Sádarnir hafa tíu daga til að verða við kröfunni, að öðrum kosti munum við grípa til aðgerða sem gætu haft skelfilegar afleiðingar.“
Lausnargjaldið er um fjórðungur af áætluðu verðmæti olíunnar um borð.