Líkamsleifar Kópernikusar fundnar

Nikulás Kópernikus.
Nikulás Kópernikus.

Vísindamenn telja sig hafa fundið jarðneskar leifar pólska stjörnufræðingsins Nikulásar Kópernikusar með því að bera DNA sýni frá beinagrind saman við hár sem fannst í einni af bókum hans.

Jerry Gassowski, fræðimaður við fornleifaskóla í Póllandi, sagði ennfremur að endurgerð á andliti eftir hauskúpu beinagrindarinnar sem fannst í pólskri dómkirkju líkist mjög samtímamyndum af Kópernikusi.

Gassowski og Marie Allen, sænskur DNA-sérfræðingur, greindu frá þessari uppgötvun í dag. Allen sagði að DNA sýni frá beinum og tönnum pössuðu við hár sem var í bók pólska stjörnufræðingsins og geymd er í bókasafni háskólans í Uppsölum.

Um snúninga himintunglanna

Nikulás Kópernikus fæddist árið 1473 og dó 1543. Hann var mikill fræðimaður, læknir og kanúki, eins og segir á Vísindavef Háskóla Íslands.  Hann hafi verið þekktastur fyrir að hafa afneitað jarðmiðjukenningu Ptólemaíosar, sem þá var viðurkennd af kirkjunni. Kópernikus og eftirmenn hans sýndu fram á að maðurinn býr ekki í miðju alheimsins eins og haldið hafði verið fram að því.

Á Vísindavefnum segir að meðan Kópernikus var að læra á Ítalíu hafi hann kynnt sér fræði grísku heimspekinganna. Bók sem hann vann að allt sitt líf, og kallaði De Revolutionibus Orbium Caelestium eða Um snúninga himintunglanna, kom út árið sem hann dó. Sagt er að fyrsta eintak bókarinnar hafi verið borið á dánarbeð hans. Í bókinni útskýrir Kópernikus sólmiðjukenninguna.

Kenning Kópernikusar er sögð hafa líkst mjög kenningu Aristarkosar frá Samos (grískur stjörnufræðingur, uppi um 310-230 f.Kr.), en er ólík í nokkrum mikilvægum atriðum. Kenning Kópernikusar var útfærð af Galíleó Galílei og síðar sönnuð stærðfræðilega af Isaac Newton, segir á Vísindavefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert