Ný rannsókn á áhrifum auglýsinga um skyndibitafæði í Bandaríkjunum bendir til að bann við slíkum auglýsingum myndi fækka offitutilfellum ungra barna um allt að 18 prósent, en um 14 prósent hjá eldri börnum.
Hafa sumir sérfræðingar fullyrt að hér sé komin fyrsta rannsóknin sem sýni fram á að sjónvarpsauglýsingar hafi svo mikil áhrif á útbreiðslu offituvandans.
Má í því samhengi rifja upp rannsókn frá árinu 2006 sem unnin var af stofnuninni Institute of Medicine þar sem ályktað var að tengsl væru þarna á milli en að sannanir um þau skorti.
Að sögn Lisu Powell, rannsakenda við Illinois-háskóla í Chicago, gæti rannsóknin haft mikil áhrif á hversu langt verði gengið í að takmarka auglýsingar af þessu tagi.
Hlutfall bandarískra barna sem glíma við offitu jókst jafnt og þétt frá upphafi níunda áratugarins og þangað til nýlega þegar það staðnaði.
Um þriðja hvert bandarískt ungmenni er of þungt eða á við offitu að stríða, samkvæmt gögnum U.S. Centers for Disease Control and Prevention.
Fjallað er um rannsóknina í tímaritinu Journal of Law & Economics.
Höfundar hennar, þar með talið rannsakendur frá Lehigh-háskóla og ríkisháskólanum í Georgíu, nutu opinberra styrkja.
Talsmenn skyndibitarisans McDonald's Corporation vísuðu til samtakanna National Council of Chain Restaurants þegar málið var borið undir þá í gær.
Að sögn AP-fréttastofunnar náðist ekki í talsmenn samtakanna í gærkvöldi.