Clinton til í ráðherrastarfið

Hillary Clinton er tilbúin að gegna hlutverki utanríkisráðherra.
Hillary Clinton er tilbúin að gegna hlutverki utanríkisráðherra. Reuters

Hillary Clinton er tilbúin að þiggja boð Barak's Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, um að vera utanríkisráðherra í stjórn hans. Hefur Clinton sent skýr merki um að hún hafi hug á að gefa upp öldungadeildarþingsæti sitt til að verða andlit Bandaríkjanna út á við.

„ Hún er tilbúin,“ hefur New York Times eftir ónefndum trúnaðarvini Clinton, sem bætti við að forsetafrúin fyrrverandi hafi gert upp hug sinn í kjölfar viðræðna við Obama um utanríkisstefnu hans.  

Talsmenn Obama segja engar áætlanir uppi um að tilkynna formlega ráðningu Clinton fyrr en að lokinni Þakkargjörðahátíðinni í lok næstu viku.  Aðstoðarmenn öldungadeildarþingmannsins vildu hins vegar ekki staðfesta frétt New York Times, en  vildu ekki heldur neita henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert