Hillary Clinton er tilbúin að þiggja boð Barak's Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, um að vera utanríkisráðherra í stjórn hans. Hefur Clinton sent skýr merki um að hún hafi hug á að gefa upp öldungadeildarþingsæti sitt til að verða andlit Bandaríkjanna út á við.
„ Hún er tilbúin,“ hefur New York Times eftir ónefndum trúnaðarvini Clinton, sem bætti við að forsetafrúin fyrrverandi hafi gert upp hug sinn í kjölfar viðræðna við Obama um utanríkisstefnu hans.
Talsmenn Obama segja engar áætlanir uppi um að tilkynna formlega ráðningu Clinton fyrr en að lokinni Þakkargjörðahátíðinni í lok næstu viku. Aðstoðarmenn öldungadeildarþingmannsins vildu hins vegar ekki staðfesta frétt New York Times, en vildu ekki heldur neita henni.