Engin kreppa í Dubai

Hvergi var til sparað við opnun Atlantis.
Hvergi var til sparað við opnun Atlantis. Reuters

Mikið var um dýrðir í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gærkvöldi þegar nýtt glæsihótel, hótelið Atlantis, var vígt að viðstöddum heimsfrægum skemmtikröftum og fyrirmönnum hvaðanæva að úr heiminum. Hvergi var til sparað við vígsluna sem sögð er sú dýrasta sem sögur fara af.

Skotið var upp hátt í milljón flugeldum, eða hátt í tífalt meira en við setningu Ólympíuleikana í Peking í sumar, og sáu ljósameistarar um að kjálkar sigu í náttrökkrinu. Hljóðaði reikningurinn upp á rétt rúmlega 3 milljarða króna.

Sjórinn var spegilsléttur en her þjóna sá um að gestir flutu um á öldum Veuve Clicquot kampavíns, sem framreitt var í tonnavís þótt arabarnir auðugu sem litu inn hafi látið óáfengt duga.

Á sama tíma og varað er við hækkun sjávarmáls er mikið byggt út í sjó í Dubai og er Atlantis þar engin undantekning. Hótelið er þannig byggt á manngerðri uppfyllingu, Palm Jumeirah, sem teygir sig út í hafið.

Hótelið er ekki það eina sem boðið er upp á eyjunni því þar má bregða sér í sædýrasafn, fara í lúxusnudd og snæða veislurétti framrétta af kokkum á heimsmælikvarða, að því er fram kemur á vefsíðu hótelsins.

Meðal þeirra sem komu fram var ástralska poppdívan Kylie Minogue sem þáðir litlar 300 milljónir króna fyrir að raula nokkur lög fyrir gesti.

Yfir 2.000 manns hlýddu á dívuna syngja frægustu slagara sína, þar á meðal bandarísku stjörnurnar Robert De Niro, Janet Jackson, Denzel Washington og Lindsay Lohan.

Bretar áttu sína fulltrúa í herlegheitunum og litu hertogaynjan af York, ævintýramaðurinn Sir Richard Branson og Íslandsvinurinn Sir Philip Green inn í gleðskapinn.

Gífurleg öryggisgæsla var við opnunina og ríflega þriggja kílómetra öryggisvæði slegið um hótelið til að tryggja að óboðnir gestir kæmust ekki að veislugestum.

Alls eru 1.539 herbergi á Atlantis sem kostaði ríflega 200 milljarða króna í byggingu.

Að sögn auðjöfursins Sol Kerzner, sem fer fyrir framkvæmdinni, komu gestir ýmist á eigin einkaþotum eða með almennum flugfélögum, þá væntanlega á fyrsta farrými.

Ljósasýningin var hátt í tífalt íburðarmeiri en við setningu Ólympíuleikana …
Ljósasýningin var hátt í tífalt íburðarmeiri en við setningu Ólympíuleikana í Peking í ágúst. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka