Í hverri viku eru 5.000 fasteignir teknar af eigendum sínum og þær settar á sölulista í Bretlandi þar sem þeir geta ekki staðið undir afborgunum. Rekja má sölu yfir 20 prósent eigna á fasteignamarkaðnum til þess að afborganirnar eru orðnar kaupendunum ofviða.
Þetta kemur fram í breska dagblaðinu The Times en þar er haft eftir lánveitendum að yfirtaka á fasteignum hafi aukist um 70 prósent í ár miðað við sama tíma í fyrra.
Búist sé við að í gögnum Council of Mortgage Lenders, sem birt verði síðar í dag, komi fram að minnst 45.000 eignir muni hafa verið gerðar upptækar í árslok.
Fasteignabólan óx hratt í Bretlandi og fór verð á fasteignum fram úr kaupgetu nýrra kaupenda.
Er Alistair Darling fjármálaráðherra sagður undir vaxandi þrýstingi um að koma húsnæðiskaupendum til hjálpar.
Peter Bolton King, formaður samtaka fasteignasala í Bretlandi, National Association of Estate Agents, segir að margir kaupendur hafi lent í erfiðleikum sökum þess að þeir hafi keypt eignir á hagstæðum afborgunarkjörum en geti ekki lengur staðið í skilum þar sem allar aðstæður hafi breyst.
En í ágúst 2006 var vaxtastigið að meðaltali 5,18 prósent.
Þýðir það að kaupandi sem tók 150.000 punda lán greiðir nú 147 pundum, hátt í 30.000 krónum, meira á mánuði í afborganir eftir að vaxtastigið hækkaði í að meðaltali 6,36 prósent.
Aukið atvinnuleysi er einnig talið orsakaþáttur í þessu samhengi.
Eins dauði er annars brauð og hafa ýmsir nýtt sér góða lausafjárstöðu til að kaupa uppboðseignir á niðursettu verði.