Félagsmálayfirvöld í Tyrklandi hafa krafist þess að Sarah Ferguson, hertogaynja af York og fyrrum tengdadóttir Elísabetar Englandsdrottningar, verði ákærð fyrir að sverta ímynd Tyrklands með þátttöku sinni í breskum sjónvarpsþætti þar sem fjallað var um aðstæður þroskaskertra munaðarleysingja í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Segja fulltrú barnaverndar og félagsmálayfirvalda tilganginn með gerð þáttarins hafa verið þann að spilla fyrir hugsanlegri aðild Tyrklands að Evrópusambandinu. Þá segja þeir myndir í þættinum, sem teknar voru með falinni myndavél brjóta gegn lögum og friðhelgi einkalífs.
Í þættinum er fylgst með heimsóknum Ferguson á munaðarleysingjaheimili í Tyrklandi óg Rúmeníu en þangað fór hún undir því yfirskyni að hún hefði hug á að styrkja starfsemi þeirra. Á mynum sem teknar voru á heimilum fyrir þroskaskerta í Tyrklandi má m.a. sjá vanhirt börn og börn sem bundin eru við rúm sín.
Ali Babacan, utanríkisráðherra Tyrklands hefur þegar sagt að rannsókn vegna þess sem fram komi í þættinum sé hafin en að hann harmi það hvernig staðið var að efnisöflun vegna hans.
Þá hefur Ferguson beðist afsökunar á því hafi framkoma hennar valdið Tyrkjum óþægindum.