London er farin að minna einum um of á Reykjavík, segir í grein Patricks Hosking á vefsíðu Times í dag. Hann segir að Bretar hafi engin efni á að hlæja að óförum Íslendinga, sams konar ástand geti komið upp þar í landi. Breskir bankar séu í reynd gjaldþrota.
Hosking minnir á að eins og á Íslandi sé bankakerfið geysilega fyrirferðarmikið í efnahag landsins, allt of stórt. Eins og á Íslandi sé allt of lítið fé í tryggingasjóðum bankanna komi til hruns þeirra. Og eins og á Íslandi séu bankarnir hrikalega skuldsettir, skuldirnar séu miklu meiri samanlagt en þjóðarframleiðslan, bankarnir hafi, eins og þeir íslensku, ekki látið sér duga fé á innlánsreikningum heldur farið út í stærri ævintýri.
„Eins og á Íslandi er stjórnin okkar nú að ráðgera að lána þeim mikið fé til að reyna að lina þjáningarnar. Eins og á Íslandi er gjaldmiðilinn okkar nú á hraðri niðurleið og erlendir fjárfestar hafa sig á brott."
Hann segir að vissulega séu vandamálin ekki jafn mikil og hér á landi en Bretar ættu ekki að vera allt of ánægðir með sig. Áætlun Gordons Browns um að bjarga bönkunum með 500 milljörðum punda úr ríkissjóði sé ekki fyrst og fremst ætlað að tryggja að bankar láni áfram smáfyrirtækjum og einstaklingum heldur sé í reynd verið að bjarga þeim frá gjaldþroti. Menn þori ekki að segja sannleikann um slæma stöðu bankakerfisins.
„Samdrátturinn er varla byrjaður og bankarnir eru þegar á hnjánum. Margir tugir milljarða punda af lélegum lánum eiga eftir að koma í ljós þegar fyrirtæki og einstaklingar geta ekki borgað af þeim," segir Hosking.