Talsmaður Sambands evrópskra skipaútgerða, Alfons Guinier, segir að ESB þurfi að bregðast við því að mörg fyrirtæki í greininni hyggist feta í fótspor AP Möller-Mærsk og láta sum skip sín framvegis sigla suður fyrir Afríku í stað þess að nota Súesskurðinn. Er ástæðan sjórán við strönd Sómalíu.
Að sögn The Guardian vill Guinier að ESB grípi til öflugra aðgerða gegn sjóræningjunum sem tóku í vikunni stórt olíuskip og færðu til hafnar á svæði sínu. Krefjast þeir lausnargjalds fyrir skip og áhöfn. Guinier segir ekki nóg að veita skipunum herskipafylgd heldur verði að ráðast gegn sjóræningjunum.