Þeir Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, og Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segjast ekki hafa fengið leyfi til að fara inn í Simbabve en þeir ætluðu að fara fyrir sendinefnd þangað.
„Það veldur okkur miklum vonbrigðum, að stjórnvöld í Simbabve skyldu ekki leyfa okkur að koma til landsins, vildu ekki eiga við okkur samvinnu," sagði Carter. Hann bætti við að þetta væri í fyrsta skipti, sem honum hefði verið meinað um að koma til nokkurs lands.
Carter segir, að hann og fleiri félagar í samtökunum Öldungunum hafi fengið að vita það í gærkvöldi að þeir fengju ekki vegabréfsáritun inn í Simbabve. Hefði Thabo Mbeki, fyrrum forseti Suður-Afríku, sem hefur reynt að miðla málum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Simbabve, tilkynnt þetta.
Nelson Mandela, fyrrum forseti Sameinuðu þjóðanna, stofnaði Öldungana. Meðal félaga eru Kofi Annan og Graca Machel, eiginkona Mandelas, sem hefur barist fyrir réttindum kvenna og barna á alþjóðavettvangi.
Annan var einnig á blaðamannafundinum með Carter. Hann sagði, að engin opinber ástæða hefði verið gefin fyrir neituninni. Hann sagðist hafa lesið um það í blaðinu Herald, málgagni Roberts Mugabe, forseta, að samtökin hefðu verið beðin um að koma síðar. Blaðið bætti jafnframt við, að litið væri svo á að samtökin væru andsnúin stjórn landsins.