Framdi sjálfsmorð í beinni útsendingu á netinu

19 ára gamall piltur á Flórída í Bandaríkjunum framdi sjálfsmorð framan við vefmyndavél. Nokkrum klukkustundum áður hafði pilturinn tilkynnt á bloggvef sínum, að hann hygðist svipta sig lífi.

Fjölskylda piltsins hefur fordæmt áhorfendur á netinu og stjórnendur vefjarins fyrir að reyna ekki að koma í veg fyrir að piltinum tækist ætlunarverk sitt. Lögregla hefur hafið rannsókn á málinu.

Fram kemur á fréttavef BBC, að pilturinn, sem bjó í Pembroke Pines á Flórída, hafi birt færslur á bloggvef sínum þar sem hann sagðist ætla að svipta sig líf með því að taka stóran skammt af þunglyndislyfjum. Hann hóf síðan að sýna myndir úr herbergi sínu á netinu.

Að sögn bandarískra fjölmiðla reyndu sumir, sem fylgdust með útsendingunni, að telja piltinum hughvarf en aðrir hvöttu hann áfram. Eftir að drengurinn hafði ekki hreyfst í nokkrar klukkustundir höfðu einhverjir notendur loks samband við fyrirtækið, sem sér um bloggsíðuna, og stjórnendur þess kölluðu lögreglu til.

Ekki er ljóst hve margir fylgdust með útsendingunni en svo virðist, sem sumir hafi haldið að um gabb væri að ræða. Það síðasta sem sást í útsendingunni var þegar lögreglumaður braust inn í herbergi piltsins, sér líkið og grípur síðan um linsu myndavélarinnar.

Faðir piltsins hefur nú hvatt til þess, að eftirlit með spjall- og bloggvefjum verði hert. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert