Skaut sig í beinni sjónvarpsútsendingu

Fyrrum lögreglustjóri í Argentínu, sem var eftirlýstur fyrir mannréttindabrot, skaut sjálfan sig til bana í beinni sjónvarpsútsendingu en verið var að taka við hann viðtal. Lögregla var í þann veginn að handtaka manninn þegar þetta gerðist. 

Mario Ferreyra hafði veitt sjónvarpsstöð viðtal og fór það fram uppi á vatnstanki í Tucumanhéraði í norðurhluta landsins. Fram kemur á fréttavef BBC, að Ferreyra sagði við sjónvarpsfréttamanninn að hann væri saklaus af ásökununum. Hann sagðist síðan myndu ávallt elska eiginkonu sína, tók síðan upp skammbyssu og skaut sig í höfuðið. 

Útsending Croinica sjónvarpsstöðvarinnar hélt áfram og sást þegar fjölskylda mannsins safnaðist saman við líkið.

Ferreyra var sakaður um mannrán og pyntingar á tímum herforingjastjórnarinnar, sem stýrði Argentínu á árunum 1976-1983. Fjölskylda hans segir, að með sjálfsmorðinu hafi Ferreyra viljað standa við þagnarheit sem hann gaf fyrrum félögum sínum, sem hafa verið ákærðir fyrir að bera ábyrgð á morðum á tugum þúsunda Argentínumanna í „óhreina stríðinu" svonefnda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert