Biðja Obama að hætta við eldflaugavarnakerfi

Bandarískri eldflaug skotið á loft.
Bandarískri eldflaug skotið á loft. Reuters

Borgarstjórar yfir 30 tékkneskra borga hafa skrifað bréf til Baracks Obama, væntanlegs forseta Bandaríkjanna, og biðja hann um að hætta við að koma upp eldflaugavarnakerfi í Tékklandi. Segja borgarstjórarnir að Evrópu stafi hætta af þessum áformum Bandaríkjamanna. 

„Við biðjum þig vinsamlegast að endurskoða afstöðu bandarískra stjórnvalda gagnvart uppsetningu hluta af eldflaugavarnakerfinu í Evrópu og stöðva þetta hættulega verkefni," segja borgarstjórarnir í bréfinu, sem AFP hefur fengið í hendur. 

Segja þeir að ef haldið verði fast við áformin muni Evrópa verða miðpunkturinn í hugsanlegum alþjóðlegum átökum. Þá hafi áform um varnarkerfið þegar aukið á spennuna milli Bandaríkjanna og Rússlands og á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Einnig sé hætta nýju vopnakapphlaupi.  

Ríkisstjórn Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta, hefur lagt mikla áherslu á að byggja ratsjárstöð um 70 km frá Prag og að koma fyrir 10 eldflaugum í Póllandi, sem hægt væri að nota til að hindra eldflaugaárás frá óvinveittu ríki. Bandaríkjastjórn segir, að varnarkerfið beinist gegn ríkjum á borð við Íran og og Norður-Kóreu en Rússar hafa tekið þessi áform óstinnt upp. Hefur Dimítrí Medvedev, forseti Rússlands, sagt að Rússar muni koma eldflaugum fyrir í Kaliningrad, rússnesku svæði á milli Póllands og Litháens. 

Obama hefur ekkert gefið út um hvort hann ætlar að halda fast við áform um eldflaugavarnirnar. Mikill meirihluti Tékka er andvígur áformunum, að sögn borgarstjóranna.Tékkneska ríkisstjórnin hefur frestað því að leggja staðfestingu á samningum um ratsjárstöðina fyrir þingið þar til eftir að Obama sver embættiseið í janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert