Mótmælendur í Taílandi sem krefjast afsagnar forsætisráðherrans boða nú til fjöldamótmæla í höfuðborginni í kvöld og segja að þetta verði þau stærstu frá upphafi og til þess gerð að bola ríkisstjórninni endanlega út. Skipuleggendur vonast til að yfir 100.000 manns taki þátt í mótmælagöngu að Þinghúsinu.
Þúsundir hermanna og lögreglumanna hefur verið skipað að standa vaktina án ofbeldis þegar mótmælin fara fram. Mótmælendur, sem kalla sig Þjóðarsamtök um lýðræði, hafa setið um ráðherrabústaðinn í Bangkok síðan í ágúst og hafa áður boðað til mótmælagöngu, sem fram hafa farið um miðja nótt. Nú er hinsvegar ætlunin að ganga í dagsbirtu.
„Það er til einskis að mótmæla í myrkri,“ sagði Chamlong Srimuang, einn skipuleggjenda við AP fréttaveituna. Nokkrar árásir hafa verið gerðir á mótmælendahópinn með handsprengjum, þ.á.m. lést einn og 29 særðust í sprengingu á fimmtudag og að sama skapi særðust átta manns í gær. Enginn hefur lýst ábyrgð sprenginganna á hendur sér.
Mótmælendur klæðast gulum bolum og sagt er að allt að því karnivalstemning ríki meðal þeirra í dag, enda vonast þeir til að ríkisstjórnin verði nú endanlega felld. Síðast þegar boðað var til mótmælagöngu brutust út átök milli mótmælenda og lögreglu með þeim afleiðingum að tveir létust og hundruðir særðust.